21.9.2009 | 13:03
Sjálfsræktarvika Sölku
Dagana 28. september til 1. október verða haldnir stuttir fyrirlestrar í húsnæði Bókaútgáfunnar Sölku, Skipholti 50 c, undir yfirskriftinni Sjálfræktarvika Sölku. Salka hefur að miklu leyti sérhæft sig í útgáfu handbóka af ýmsu tagi. Í sjálfsræktarvikunni ætlum við að sjá þessar bækur lifna við og fá góðar hugmyndir að því hvernig megi nýta sér boðskap þeirra í amstri dagsins.
Fyrirlestrarnir verða allir haldnir frá klukkan 17.30 til 19.00 til að gera áhugasömum kleift að koma við í leiðinni heim úr vinnu. Fyrirlestrarnir fjalla um uppbyggjandi málefni og er ætlað að gefa góð ráð og innblástur til að rækta sál og líkama, stuðla að vellíðan og góðum venjum í vetur.
Dagskrá Sjálfsræktarviku Sölku
Mánudagur 28. september
Ræktaðu garðinn þinn
Hildur Hákonardóttir segir frá því hvernig nota megi veturinn til góðra verka til að rækta garðinn sinn, bæði í bókstaflegri og óbókstaflegri merkingu.
Þriðjudagur 29. september
Vellíðan í vetur
Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir, Yoga leiðbeinandi, fer yfir nokkrar aðferðir sem geta nýst til að láta okkur líða vel.
Miðvikudagur 30. september
Græn skref fyrir góðan dag
Guðrún Bergmann, höfundur bókarinnar Konur geta breytt heiminum með nýjum lífsstíl, fjallar um hvernig hægt er að taka ákvarðanir í rekstri heimilisins bætt getur líðan og getur skipt miklu máli fyrir umhverfið þegar saman kemur. Lítil græn skref fyrir heimilin, stórstígar framfarir fyrir heiminn.
Fimmtudagur 1. október
Orð eru til alls fyrst
Sigríður Arnardóttir, Sirrý hin landsþekkta fjölmiðlakona, fjallar um minnistæð orð og setningar sem hafa orðið til þess að breyta viðhorfi hennar og lífi. Sirry kemur með dekurkörfuna sína og sýnir hvernig hægt er að dekra við sjálfan sig á ódýran og einfaldan hátt.
Hlökkum til að sjá þig!
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2009 | 15:00
Kjarninn í Kringlunni
Kristján Ingi hefur haldið sjö ljósmyndasýningar og gefið út nokkrar barnabækur, má þar nefna: Húsdýrin okkar, Krakkar, krakkar og Kátt í koti. Einnig hefur hann tekið ljósmyndir í fjölda kennslubóka. Á heimasíðu hans má líka finna myndir úr bókinni. Við mælum með þeim!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2009 | 13:55
Bína örvar börn
Bókaforlagið Salka er þessa dagana að prófa sig áfram í alveg nýju hlutverki við að halda utanum ráðstefnuhald. Það er spennandi og skemmtilegt verkefni, enda rignir inn skráningum. Verkefnið er fyrst og fremst hugsjónamál fyrir Sölku, því ráðstefnan fjallar um málörvun barna og lestrarnám. Málaflokkurinn er okkur hugleikinn. Auk þess sem það hlýtur að vera kappsmál fyrir bókaútgáfu að sem flest börn læri lestur og ást á bókum, þá höfum við um nokkurra ára skeið unnið með talmeinafræðingi Ásthildi Bj. Snorradóttur, hjá Talþjálfun Reykjavíkur, að útgáfu bókaflokksins um hana Bínu litlu.
Við vitum auðvitað öll hve mikilvæg góð lestrarkunnátta er börnum og að undirstöðurnar þurfa að vera góðar. Bókaflokkurinn um Bínu er velheppnað dæmi um barnaefni sem er skemmtilegt fyrir börnin, en fræðandi fyrir fullorðna fólkið. Efnið byggir á niðurstöðunum úr þeirri og öðrum alþjóðlegum rannsóknum sem sýna bein tengsl milli hljóðkerfisvitundar og lestrarfærni.
Ásthildur er einmitt á mælendaskrá á ráðstefnunni 10. september og ætlar að kynna hugmyndafræði Bínu, en auk hennar tala Steinunn Torfadóttir og Helga Sigmundsdóttir frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Inga María Ingvarsdóttir, leikskólastjóri á Leikskólanum Tjarnarbæ, Halla S. Árnadóttir, móðir barns með málþroskafrávik, Laufey Skúladóttir, grunnskólakennari í Brekkubæjarskóla og Hugborg Erlendsdóttir, leikskólasérkennari á Leikskólanum Hvammi. Frú Vigdís Finnbogadóttir setur ráðstefnuna, sem verður haldin á Hótel Sögu.
Hafið samband ef þið óskið eftir dagsskrá og frekari upplýsingum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2009 | 09:18
Spriklandi tilboð
Matreiðslubækur eru orðnar svo miklu meira en bara uppskriftabækur. Mat og matargerð fylgir lífsstíll, venjur, sögur, aðferðir og margt fleira. Og rétt eins og uppskriftir eru fjölbreyttar, er umgjörð matarins og menning ólík. Og í matreiðslubókum nútímans leitum við því - auk uppskriftanna - eftir stemningu. Við fáum vissulega hugmyndir að girnulegum réttum, en við lesum þær líka til gamans.
Bókin Spriklandi lax í boði veiðikokka, eftir þá Bjarna Brynjólfsson og Loft Atla Eiríksson, er nýjasta dæmið um slíka bók hjá Sölku. Auk þess sem kokkar úr veiðihúsum á víð og dreif um landið birta uppskriftir að sínum bestu laxaréttum, miðla þeir af þekkingu sinni og reynlsu af ánum, uppáhaldsflugum og segja veiðisögur af bestu gerð.
Þetta er bók fyrir jafnt áhugamenn um matargerð og veiðifríkur. - Og auðvitað fullkomin fyrir alla sem hafa unun af því að sameina þetta tvennt og veiða sér til matar. Bókin verður á alveg sérstöku SVFR-tilboði næstu vikuna, til og með 26 ágúst, hérna hjá okkur í Sölku, Skipholti 50c og á netinu, á 2990,- fyrir Stangveiðifélaga.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2009 | 10:19
Áhrifamikil og holl lesning
Kristín Viðarsdóttir fjallar m.a. um Dagbók Hélène Berr í pistli á Bókmenntavefnum nýverið:
"Af einhverjum ástæðum komu þónokkrar þýðingar sem tengjast helförinni út hér á síðasta ári. Ég hef lesið þrjár þessara bóka en þær eru Dagbók Hélène Berr, Bókaþjófurinn og Strákurinn í röndóttu náttfötunum.
Tvær þær síðarnefndu eru skáldsögur en sú fyrsta, og að mínu mati áhrifamesta, er raunveruleg dagbók franskrar stúlku af gyðingaættum sem bjó í París en lést í Auswitch rétt áður en bandamenn yfirtóku búðirnar. Bókin var ekki gefin út í Frakklandi fyrr en á síðasta ári, en hún var varðveitt af unnusta Hélène og gefin út af systurdóttur hennar. Dagbókin, sem er skrifuð á árunum 1942 1944, er vitnisburður um aðdáunarvert hugrekki og æðruleysi þessarar ungu konu sem var bæði víðsýn og haldin ríkri réttlætiskennd. Hún neitar að beygja sig fyrir kúguninni og þrátt fyrir óbærilegt efnið lokar maður bókinni með ótrúlega jákvæðum huga.
Hélène bjó í París og gekk í Sorbonne. Hún var af vel stæðum gyðingaætttum og allt virðist hafa verið í lukkunnar velstandi í fjölskyldunni fram að hernámi Frakklands. Hún stúderar enskar bókmenntir, spilar á fiðlu, er menntuð og víðsýn og á fullt af vinum. Bókin byrjar sem hefðbundin dagbók þar sem Helene segir frá daglegu lífi, ástarflækjum og pælingum um það sem hún er að lesa, en fljótlega fer stríðið og ofsóknir á hendur gyðingum að spila stærri rullu. Hún hættir að skrifa í nokkra mánuði og það eru greinileg skil í bókinni milli fyrri hluta hennar og þess seinni þegar hún hefur að skrifa aftur 1943. Þá hefur hún tekið ákvörðun um að hún sé að skrifa fyrir lesendur, beinlínis til að skilja eftir sig vitnisburð um það sem á sér stað. Hún er mjög meðvituð um hugsanleg örlög sín og um leið yfirveguð og ótrúlega staðföst í þeirri ákvörðun sinni að láta ekki óttann um eigin örlög ná tökum á sér. Holl lesning sem ég mæli eindregið með."
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2009 | 15:14
Kreisí hinseigin Ísland
Það er ýmislegt sem ber fyrir augu gesta Íslands sem þeim þykir forvitnilegt. Sjálf vitum við fullvel af mörgum sérkennum okkar og höfum flest gaman að því að bera brennivín, súrsaða hrútspunga og hákarl í túristagreyin, sem gretta sig feimin meðan við brosum í kampinn; Só há dú jú læk Æssssland?
En stundum vitum við vart af sérstöðu okkar. Og það eru einmitt kannski bestu - líka fyrir gesti - hlutirnir, atburðirnir, maturinn og ekki síst stemningin. 50 crazy-serían hefur verið vinsæl og vakið gífurlega athygli meðal ferðamanna, fyrir að kynna einmitt líka þessa sérstöku þætti íslensku menningarinnar. Þetta eru öðruvísi landkynningarbækur, sem gera góðlátlegt grín að hinum og þessum sérkennilegheitunum... Og kynna þau!
Tvö dæmi frá nýliðinni helgi eru Fiskidagurinn á Dalvík og Hinsegin dagar í Reykjavík. Báða atburði má finna meðal þeirra 150 "kreisí" hugmynda sem hægt er að upplifa á Íslandi. Fiskidagurinn á auðvitað engan sinn líka; Er alveg sér-íslenskt fyrirbæri og einu orði sagt stórkostlegur fyrir alla sem upplifa hann. Gay Pride aftur á móti. Er það ekki innflutt hugmynd?
Jú - en Íslendingar hafa tekið Gleðigönguna til sín með alveg einstökum hætti. Hvergi í heiminum eru sambærileg fjölskylduhátíðahöld og gleði í kringum Gay-göngur og eru hér. Sannkölluð hátíð ástar og fjölbreytileika - og alveg einstök "crazy romantic" upplifun.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2009 | 11:11
Er mannfólk í kjarna Íslands?
Kápa bókarinnar vekur athygli en hana prýða Jarlhettur með heybagga, pakkaða í plast, í forgrunni. Það voru tillögur að tveimur kápum, annars vegar þessi og hins vegar af líparítfjöllum sem eru nánast á öllum bókum af þessu tagi. Við gerðum könnum meðal starfsmanna sendiráða Íslands um allan heim og fengum tillögur og athugasemdir frá þeim. Það varð mjótt á mununum en okkur fannst þessi mynd öðruvísi. Þetta er kannski ekki kjarni Íslands en þetta er það sem fólk sér á ferðum sínum um landið og því orðið hluti af landslaginu, segir Kristján Ingi.
Það var spennandi og athyglisvert ferli að fylgjast með og taka þátt í þeim vangaveltum sem áttu sér stað, þegar velja átti kápu á Kjarna Íslands. Káputillögurnar tvær, sem Kristján Ingi talar um í þessu Moggaviðtali, voru báðar mjög fallegar - en líka mjöööög ólíkar myndir. Og almennt höfðu flestir afgerandi skoðun á málinu.
Viðbrögð fólks við kápunni sem varð fyrir valinu eru líka misjöfn. Það stuðar marga að hafa þessa manngerðu hlunka, sem heybaggarnir eru, í forgrunni myndarinnar. Og satt best að segja er kápan ekki mjög lýsandi fyrir ljósmyndirnar í bókinni að öðru leyti. En hún er aftur á móti lýsandi fyrir landið sem við ferðumst um. Við mannfólkið - og allt okkar hafurtask - erum hluti af þeirri náttúru sem við lifum í - og lifum á. Erum við ekki líka hluti af kjarnanum?
Mín sýn á landið gegnum linsuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2009 | 12:41
Kunna konur ekki að grilla?
Thomas Möller, lífskúnstner og matreiðslubókahöfundur m.m., er sannfærður um að karlmenn hafi í sér grill-gen. Hann færir fyrir því mannfræðileg rök að menn séu til þess gerðir að brillera við grillið. Og nú á dögum, þegar konur eru farnar að spila golf, bóna bíla og veiða lax, telur Thomas grillið vera eitt síðasta vígi karlmennskunnar.
En, að grilla er ekki auðvelt! Hver kannast ekki við sótgrillaðar eðalsteikur og hálfhráar kjúklingabringur grillmeistarans, sem á kannski flottasta grillið í botnlanganum... en stendur fyrir lélegustu matseldinni?
Þess vegna er Thomas nú mættur aftur til leiks, eftir gríðarlegar vinsældir fyrstu matreiðslubókar hans, Eldaðu maður!,með splunkunýja bók fyrir karlana. Í Grillaðu maður!eru uppskriftirnar sérstaklega hannaðar fyrir karlmenn. - Þær eru einfaldar, auðveldar og fljótlærðar! En það sem meira er - þær eru frumlegar og koma á óvart!
Stútfull af glóðvolgum grillráðum, græju-lýsingum og góðum hugmyndum er Grillaðu maður! "alvöru grillbók - fyrir alvöru karlmenn"! ... Er það af því að við konur kunnum ekki að grilla, gerum það ekki eða af því að við þurfum ekki á leiðbeiningunum að halda?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2009 | 10:05
Konur geta breytt heiminum á ferð og flugi
Konur geta breytt heiminum er á ferð og flugi þessa dagana. Síðastliðin laugardag kynnti Guðrún Bergmann bókina í Garðabæ þar sem Kvennahlaup ÍSÍ fór fram. Mikill áhugi var á bókinni enda kvenréttindadagurinn nýliðin og allar konur staðráðnar í að láta til sín taka til að stuðla að betri og grænni heimi.
Lítil græn skref geta haft mikil áhrif og stuðlað að betri líðan, bættri heilsu, sparnaði og minni mengun!
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2009 | 11:13
Menning við matarborðið
Það hefur stundum verið sagt að á meðan við Íslendingar borðum til að lifa, þá lifi Frakkarnir til að borða. Sigríður Gunnarsdóttir hefur búið öll sín fullorðinsár í Frakklandi og í bókunum Sælkeraferð um Frakkland og Sælkeragöngur um París deilir hún ástríðu sinni fyrir dásemdum franskrar matarmenningar með lesendum. Hér á eftir fer hugleiðing Sigríðar fyrir Sölkubloggið um muninn á matarmenningu þessara tveggja þjóða:
Matargerðarlist Frakka er byggð á margra alda gamalli hefð. Frakkar voru ríkasta heimsveldið í nokkrar aldir. Hér var rík yfirmannastétt, aðall og góðborgarar. Þessar stéttir höfðu efni á að borða góðan mat og gerðu fljótt miklar kröfur. Land þeirra er gjöfult; hér vex nýtt grænmeti allt árið, hér er mikil alidýrarækt, villibráð og fiskveiði. Landið er mjög stórt og ólíkt eftir héruðum. Þessar einstöku aðstæður hafa skapað grundvöll fyrir matargerðarlist, sem hvergi er til sambærilegur í vestrænum heimi.
En þegar slík hefð er fyrir hendi, þýðir það líka, að fólk gæti átt til að staðna í þróun. Það þarf að vernda þjóðararfinn. Sumum finnst best allt gamalt og gott. Margir vilja bara það sem mamma þeirra var vön að elda þegar þau voru krakkar. Gamlir réttir eru enn mjög lífsseigir.
Til allrar hamingju eru Frakkar listamenn um leið og þeir eru kokkar. Enn þann dag í dag eru þeir að finna upp nýjar leiðir, ný krydd og jafnvel ný hráefni. Oftast er þó þetta nýja eldhús byggt upp á fornri list, færðan í nýjan búning.
Þegar ég var að alast upp var Ísland bláfátækt land. Fólk var fegið ef það fékk að borða. Kröfur um góðan mat voru ekki til. Ég ólst sjálf upp á saltfiski, grautfúnum kartöflum og hamsatólg með til að koma þessu niður. Matartímar voru venjulega þraut, svo ólystugt var þetta.
Tímarnir eru aðrir í dag á Íslandi, flestir hafa efni á að borða hollan mat. En er hann það yfirleitt? Fyrir 40 árum sást varla feitlagið fólk, hvað þá börn. Nú virðist annar hvor maður vera með aukakíló. Eru Íslendingar ekki enn að borða vondan mat? Og þá meina ég óhollan. Pitsur og hamborgarar hafa komið í stað saltfisksins. En þetta nýja fæði er bara ekkert betra.
Við gætum áreiðanlega margt lært af Frökkum: Gefa okkur tíma til að elda sjálf, vera með nýtt grænmeti í hverri máltíð, borða hægt og tala saman. Matartímar verða þá ánægjustund, ég segi hamingjustund, ekki aðeins vegna hve maturinn er góður, heldur af því að fjölskyldan sameinast við matborðið, slappar af og talar saman. Er það ekki einmitt það sem oft vantar hjá okkur Íslendingum?
Sigríður Gunnarsdóttir
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Mínir tenglar
- Konur eiga orðið allan ársins hring legðu orð í belg
- Heimasíðan
- Bókabúðin
- Hugmyndabókin
- Bókatíðindi félag íslenskra bókaútgefanda
- Höfundaréttur
- Rithöfundasambandið
Bækur
Nýjar bækur
-
Falleg ferðahandbók með yfir 600 myndum af Íslandi sem teknar voru af Rafni Hafnfjörð með texta eftir Ara Trausta Guðmundson
: Focus on Iceland
Tónhlaða
Bloggvinir
- almaogfreyja
- andreaolafs
- annapala
- annabjo
- birgitta
- bryndisisfold
- austurlandaegill
- eddabjo
- thesecret
- gurrihar
- handtoskuserian
- hildurhelgas
- hlynurh
- jenfo
- jensgud
- katrinsnaeholm
- kristjanb
- domubod
- margretloa
- brandarar
- hafstein
- raksig
- salvor
- steingerdur
- klarak
- vefritid
- para
- agustolafur
- thoragud
- bokakaffid
- lucas
- gbo
- jgfreemaninternational
- astroblog
- slembra
- steinunnolina