Það er Hallveig Thorlacius sem er höfundur skáldsögunnar um Hrefnu. Hallveig er löngu kunn sem sögukona. Hún hefur fært börnum ævintýri úr Sögusvuntunni bæði hér heima og víða um lönd. Brúðuleikhúsið hefur verið hennar aðalsmerki sem hún hefur borið með sóma. Nú leitar Hallveig á ný mið og ef litið er á spæjarahæfileika Hrefnu þá kæmi ekki á óvart þótt hún ætti eftir að glíma við fleiri gátur á næstu árum.
Martröð er æsispennandi saga frá fyrstu síðu. Bakgrunnur Hrefnu er ævintýralegur sem auðveldar lesendum samsömun með henni, það eru litlar líkur á því að stúlkur á Íslandi hafi fundist þriggja ára gamlar uppi í tré í Mexíkó. Flestum þætti hins vegar skemmtilegt að geta státað af slíkri sögu. Söguþráðurinn er hraður, sem dregur úr dýpt sögunnar, en kemur þó ekki að sök því úr verður hraður reyfari fyrir unglinga. Hallveig fléttar inn í söguna fræðslu um sögu indíána í Mexíkó.
Hér norður á hjara þekkja menn lítið til ættbálkasögu Suður-Ameríku og spennandi að lesa um hana. Inn á milli veltir Hrefna fyrir sér stöðu Íslands gagnvart náttúruvernd og stöðu landsins í hörðum heimi eiturlyfjanna. Með því vekur höfundur athygli á mikilvægi fræðslu til þeirra sem landið erfa á stöðu þess í heiminum.
Tvær ljósmyndir eru í bókinni, annars vegar sú sama og á forsíðu og hins vegar mynd af afa og ömmu Hrefnu. Ljósmyndirnar gera söguna trúverðugari, en upplýsingar um uppruna seinni myndarinnar vantar. Auk ljósmyndanna eru í bókinni teikningar Hrefnu textanum til stuðnings, þó það komi hvergi fram er nokkuð víst að þær séu höfundar.
Martröð er spennusaga sem grípur lesandann með sér frá fyrstu síðu.